Davíð Helgason, stofnandi Unity, og Iceland Innovation Week efna til loftslagsviðburðarins „Ok, bye“ í Hörpu þann 18. maí næstkomandi. Frumkvöðlar og þekkta loftslagsfjárfesta auk listamanna munu koma fram en ætlunin er að skapa samtal og vekja athygli á Íslandi sem miðpunkti í loftslagsmálaumræðunni.

Nafnið Ok, bye vísar í OK jökul sem var fyrsti íslenski jökullinn til að hverfa árið 2014. Viðburðinum er ætlað að vekja athygli á Íslandi sem miðpunkti í loftslags umræðunni og laða til landsins fleiri græn tækifæri á stærri skala en þekkst hefur.

Fjallað verður um breytingar sem fram undan eru frá uppbyggilegu sjónarhorni og varpa ljósi á lausnir og frumkvöðla sem leggja sitt af mörkum til að bregðast við vandanum. Í tilkynningu segir að viðburðurinn sé ekki hefðbundin ráðstefna í þeim skilningi heldur frekar gjörningur, þar sem fyrirlestrar og umræður tvinnast saman við listrænar uppákomur, tónlist og sjónræna upplifun.

„Flestar af þeim lausnum sem við þurfum til þess að leysa loftslagsvandann eru til nú þegar - en það þarf að finna þær, sanna þær, besta þær, fjárfesta í þeim og skala þær upp. Á viðburðinum koma saman fjárfestar, frumkvöðlar, vísindafólk, listafólk, pólitíkusar og aðrir lykilaðilar í loftslagsgeiranum og ég hlakka til að sjá hreyfinguna í kringum loftslagsmál vaxa enn frekar,“ er haft eftir Davíð Helgasyni .

Meðal þeirra sem kom fram, auk Davíðs, eru bróðir hans Ari Helgason loftslagsfjárfestir, Edda Sif Pind Aradóttir framkvæmdastjóri Carbfix, Lindsey Higgins loftslagsráðgjafi Pale blue dot í Svíþjóð, Marty Odlin framkvæmdastjóri og stofnandi Running Tide, Salka Sigurðardóttir, loftslagsráðgjafi hjá bresku ríkisstjórninni og Sarah Sclarsic meðstofnandi Voyager fjárfestingasjóðsins í Bandaríkjunum.

Sjá einnig: Helgasynir stofna sprotasjóð

Meðal þeirra listamanna sem koma fram verða Hildur, Una Torfa, Teitur Magnússon, Kvennakórinn Katla, Guðmundur Felixson, Milkywhale og fleiri.

„Við hjá Iceland Innovation Week erum ótrúlega spennt að taka höndum saman með Davíð Helgasyni og hans teymi og skapa þennan sérstaka viðburð á hátíðinni. Loftslagsmálin eru allstaðar efst á baugi og vandamálin sem við stöndum frammi fyrir eru stór og aðkallandi. Á Ok, bye er ætlunin hins vegar að einblína á lausnirnar og hvað við þurfum að gera til að koma okkur yfir markið þegar kemur að því að standa við skuldbindingar Parísarsáttmálans,“ segir Melkorka Sigríður Magnúsdóttir , framkvæmdastjóri Iceland Innovation Week.

Sjá einnig: Vetnisgrill, gervihné og frægð á einni nóttu

Viðburðurinn er hluti af Iceland Innovation Week sem fer fram dagana 16.-20. maí. Frumkvöðlum og fyrirtækjum gefst tækifæri á að kynna þá skapandi starfsemi sem á sér stað á degi hverjum, opna dyrnar fyrir gestum og gangandi og vekja athygli á ólíkum, framúrstefnulegum lausnum.