*

þriðjudagur, 16. júlí 2019
Innlent 14. júlí 2017 13:16

Líta björtum augum til Íslands

Lufthansa mun fljúga þrisvar sinnum í viku frá Frankfurt til Keflavíkur í allan vetur.

Ritstjórn

Þýska flugfélagið Lufthansa mun í vetur fljúga þrisvar sinnum til Íslands frá Frankfurt í Þýskalandi. Er þetta í fyrsta sinn sem flugfélagið sem er það stærsta í Þýskalandi býður upp á áætlunarferðir til Keflavíkurflugvallar utan háannatímans í ferðaþjónustu. 

Í frétt Túrista er haft eftir Andreas Köster, sölustjóra Lufthansa á Bretlandi, Írlandi og Íslandi að síðustu tvær sumarvertíðir á Íslandi hafi verið vel heppnaðar og gefið félaginu tækifæri á að byggja upp tengsl við bæði neytendur og og ferðaskrifstofur á Íslandi og í Þýskalandi. Því telur Lufthansa tímabært að bjóða upp á vetrarflug til Íslands jafnvel þó eftirspurnin sé minni á þeim tíma árs.

Á síðustu misserum hafa borist fréttir af afbókunum þýskra ferðahópa og forsvarsmenn umsvifamikilla ferðaskrifstofa í Þýskalandi hafa gefið það út að erfitt sé að verðleggja ferðir til Íslands á næsta ári vegna óvissu í íslenskum ferðamannaiðnaði. Segir Köster að þetta ástand valdi honum ekki áhyggjum. „Við erum mjög jákvæð gagnvart íslenska markaðnum eins og fjölgun ferða okkar til Íslands frá Frankfurt og sumarflug frá Munchen er til marks um. Við aukum aðeins umsvif okkar þar sem við teljum að það borgi sig.”

Þýskir ferðamenn eru einungis 28% þeirra farþega sem nýta sér flug Lufthansa til Íslands frá Þýskalandi. Næst á eftir koma Ítalir með 8,6% og er ástæðan rakin til þess að framboð á beinu flugi milli Ítalíu og Íslands hafi verið takmarkað. Sem dæmi má nefna að flug Vueling og WOW air til Rómar var lagt af í sumar. Íslendingar eru svo 7,6% af farþegum Lufthansa. Segir Köster að með vetrarfluginu til Frankfurt gefist íslenskum farþegum tækifæri á tengiflugi til 174 evrópskra áfangastaða auk 205 borga í Asíu, Ameríku, Mið-Austurlöndum og í Afríku.

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is