Marta Guðrún Blöndal, lögfræðingur Viðskiptaráðs, flutti erindið „Opinbert eftirlit: dulin skattheimta?” á Skattadeginum 2016 í morgun. Í erindinu kemur fram mat Mörtu á því að margs konar eftirlitsgjöld sem fyrirtæki greiða til hins opinbera séu ekki í samræmi við þjónustu sem veitt er fyrir þessu gjöld.

Þá kemur einnig fram í kynningunni að sumar eftirlitsstofnanir virðist líta sem svo á að sektir séu tekjuöflunartæki. Máls síns til gagns nefnir Marta mál Banana ehf. sem og mál Icepharma ehf., en í báðum tilfellum var félögunum gert að greiða eftirlitsgjald sem ekki var í nægilegu samræmi við það eftirlit sem gjaldið átti að greiða fyrir.

Þá námu tekjur ríkissjóðs af stjórnvaldssektum síðustu tvö ár tæpum milljarði króna. Þá hefur forstjóri Samkeppniseftirlitsins rökstutt kröfu sína um aukin fjárframlög til stofnunarinnar með tilvísun til innheimtra stjórnvaldssekta.