Stofnendur Controlant munu fara yfir sögu félagsins á afmælisviðburðinum Frægð á einni nóttu tekur fimmtán ár, sem fer fram í Grósku hugmyndahúsi kl. 17:00-18:30 í dag. Viðburðinn er hluti af á Iceland Innovation week.

Fyrirtækið, sem fagnar 15 ára afmæli sínu í ár, hefur vaxið gífurlega hratt á síðustu árum, ekki síst vegna risasamnings við lyfjaframleiðandann Pfizer um eftirlit með dreifingu bóluefna við Covid-19 farsóttinni. Starfsmenn Controlant eru orðnir fleiri en 360 talsins en til samanburðar voru þeir um 50 í ársbyrjun 2020. Þá tuttugufölduðust tekjur félagsins á milli áranna 2019 og 2021.

Sjá einnig: Ótrúlegur uppgangur Controlant

Stofnendurnir Gísli Herjólfsson, forstjóri Controlant, og Erlingur Brynjúlfsson, framkvæmdastjóri nýsköpunar, muna fara yfir upphaf félagsins og kafa svo ofan í hvernig það kom til að lítið nýsköpunarfyrirtæki í Kópavogi var í lykilhlutverki í dreifingu bóluefna í heimsfaraldrinum. Loks munu þeir horfa til framtíðar og ræða um hvernig næstu 15 árin verða.