Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, segir lítið sem ekkert svigrúm hjá ríkissjóði til að örva atvinnulífið í landinu. Staðan sé einfaldlega mjög þröng.

„Það er engin töfralausn í kortunum til að örva hagkerfið; engin risavirkjun, engar stórar opinberar framkvæmdir eða skattalækkanir," segir hann í ítarlegu viðtali við Viðskiptablaðið í dag.

Hann segir að allir gerir ráð fyrir því, og þar með Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, að hagvöxtur verði ekki mikill á næsta ári. „Ég sé ekkert í kortunum núna sem getur breytt þeirri mynd. Það er ekkert svigrúm vegna fjárhagsstöðu ríkisins," segir hann.

Skattar hafa ekki verið útfærðir

Útlit er fyrir að álögur á atvinnulífið verði auknar á næsta ári en þær hafa ekki verið útfærðar eða nefndar sérstaklega í fjárlagafrumvarpinu - ef frá er skilinn auðlindaskatturinn.

Þegar Gylfi er spurður hvaða skatta eigi að leggja á atvinnulífið og hvort setja eigi á fleiri nýja skattstofna svarar hann: „Það liggur ekkert fyrir í þeim efnum, nema það sem stendur í fjárlagafrumvarpinu og það sem sagt hefur verið um það hvernig snúa á fjárlagahallanum í afgang á næstu árum. Það verður gert með niðurskurði og skattahækkunum í nokkurn veginn jöfnum hlutföllum. Ég vil engu spá um það hvernig nánari útfærsla verður en þó benda á að ég tel enga hættu á að skattar verði fyrir vikið almennt hærri hér eða almannaþjónusta lakari en í nágrannalöndunum."

Ítarlegt viðtal er við Gylfa Magnússon í Viðskiptablaðinu í dag.