*

miðvikudagur, 20. október 2021
Innlent 4. apríl 2021 15:04

Lítið byggt í Hafnarfirði

Mesti kraftur í íbúðauppbyggingu er í Garðabæ en í Hafnarfirði er lítið að gerast eins og staðan er.

Trausti Hafliðason
Dregin er upp dökk mynd í nýrri greiningu SI, sem sýnir að aldrei áður hefur mælst meiri samdráttur á milli ára í byggingu nýrra íbúða.
Haraldur Guðjónsson

Samtök iðnaðarins (SI) birtu á dögunum viku greiningu, sem byggir á talningu á íbúðum í byggingu á höfuðborgarsvæðinu. Óhætt er að segja að myndin sé dökk því ekki hefur áður mælst meiri fækkun íbúða í byggingu á svæðinu frá því að mælingar hófust árið 2010. Nemur samdrátturinn á milli ára 21%. Í mars í fyrra voru tæplega 4.500 íbúðir í byggingu en núna eru þær ríflega 3.500.  

Tölur SI sýna enn fremur að tæplega 1.300 íbúðir eru nú á fyrstu byggingarstigum (að fokheldu) á höfuðborgarsvæðinu og dregst fjöldinn saman um 15% frá mars í fyrra. Íbúðum, sem tilbúnar eru til innréttinga, fækkar enn meira á milli ára eða um 26% og fullgerðum íbúðum fækkar líka. Er þetta áhyggjuefni fyrir framboðshlið fasteignamarkaðarins á næstu misserum.

Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa staðið sig æði misjafnlega þegar kemur að úthlutun lóða og byggingu nýrra íbúða. Mosfellsbær var um langa hríð í fararbroddi en samkvæmt skýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar fjölgaði íbúðum í Mosfellsbæ um ríflega 40% á árunum 2009 til 2019, langt um meira en í öðrum sveitarfélögum landsins.

Samkvæmt tölum SI eru tæplega 160 íbúðir í byggingu í Mosfellsbæ, sem þýðir að íbúðum þar mun fjölga um 3,6%. Í Reykjavík eru ríflega 2.000 íbúðir í byggingu, sem þýðir einnig hlutfallslega aukningu upp á 3,6%.

Mesti krafturinn í Garðabæ

Mesti kraftur í uppbyggingu er í Garðabæ, en þar er verið að byggja tæplega 500 íbúðir sem þýðir 7,4% aukningu á íbúðafjölda. Í Kópavogi er verið að byggja um 700 íbúðir, sem samsvarar 4,7% aukningu íbúða. Athygli vekur hversu lítil uppbygging er í Hafnarfirði, þriðja fjölmennasta sveitarfélagi höfuðborgarsvæðisins. Þar er einungis verið að byggja tæplega 160 íbúðir sem þýðir hlutfallslega aukningu upp á tæplega 1,5%.

Taka verður Seltjarnarnes út fyrir sviga í þessum samanburði, þar sem sveitarfélagið á ekki mikið byggingarland. Þar er verið að byggja tvær íbúðir samkvæmt talningu SI.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.