Þann 15. júlí gaf Seðlabankinn lífeyrissjóðunum kost á að sækja um undanþágu til að geta fjárfest erlendis fyrir samtals 10 milljarða króna. Gildir heimildin út þetta ár, en hrein eign lífeyrissjóðanna er samtals um 2.660 milljarðar.

Haukur Hafsteinsson, framkvæmdastjóri LSR, stærsta lífeyrissjóðs landsins, er ánægður með að fyrsta skrefið hafi verið tekið, en sjóðurinn fékk heimild upp á 1,4 milljarða króna. „Við lítum á þetta sem jákvætt start og bindum fastlega vonir við að þeir hækki þessa fjárhæð á næsta ári,“ segir Haukur, sem viðurkennir að upphæðin hafi ekki mikil áhrif í stóra samhenginu.

Lífeyrissjóðurinn Gildi hefur enn ekki sótt um undanþágu en mun gera það á næstu dögum. Framkvæmdastjórinn Árni Guðmundsson býst við því að heimild sjóðsins verði um það bil 1,2 milljarðar króna og tekur undir með að það sé jákvætt að fyrsta skrefið hafi verið tekið. Spurður um fjárfestingarkosti lífeyrissjóðanna erlendis segir Árni að Gildi fjárfesti fyrst og fremst í alþjóðlegum hlutabréfasjóðum en einnig í framtakssjóðum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .