*

þriðjudagur, 25. janúar 2022
Innlent 9. janúar 2021 19:01

Lítið fæst upp í 750 milljóna kröfur

Capacent á Íslandi fór í gjaldþrot í annað skiptið í fyrra, en fyrrum starfsmenn hafa þegar stofnað ný fyrirtæki.

Júlíus Þór Halldórsson
Skrifstofur Capacent við Borgartún 27.

Ráðgjafarfyrirtækið Capacent fór í 750 milljóna gjaldþrot um mitt síðasta ár. Það er í annað sinn sem fyrirtækið fer í þrot, en það fór einnig í 1,8 milljarða gjaldþrot árið 2010 eftir útrás fyrir hrun með tilheyrandi gjaldeyrislántöku.

Fyrrverandi starfsmenn hafa þegar stofnað ný fyrirtæki sem halda munu áfram sambærilegri starfsemi. Intenta var stofnað í maí þegar ljóst var í hvað stefndi. Forsvarsmenn sögðu fyrirtækið hafa getu og þekkingu til að taka við sumum verkefnum Capacent.

Forstöðumaður greiningardeildar félagsins, Snorri Jakobsson, stofnaði fyrirtækið Jakobsson Capital, en hann hélt að eigin sögn í nær alla fyrrverandi viðskiptavini greiningardeildar Capacent. Þá stofnaði Þórey Vilhjálmsdóttir Proppé ásamt öðrum Empower, Birna Bragadóttir stofnaði Befirst og nokkrir fyrrum starfsmenn stofnuðu Vinnvinn.

Capacent á Íslandi á rætur sínar að rekja til upphafs 10. áratugarins. Árið 2005 hóf það útrás og fór mikinn í þeim efnum á næstu árum, sem meðal annars var fjármagnað með 700 milljóna króna gjaldeyrisláni sem félagið tók hjá Íslandsbanka árið 2007. Í hruninu tvöfaldaðist höfuðstóll lánsins, og eftir að ekki náðist samkomulag um greiðslu þess fór félagið í þrot.

Lýstar kröfur í þrotabúið námu 1,8 milljörðum króna. Í kjölfarið keyptu starfsmenn Capacent reksturinn úr þrotabúi félagsins, sem þá hét GH1 hf., á 86 milljónir króna, auk þess sem vörumerkið var keypt á 6 milljónir. Sá gjörningur varð nokkuð umdeildur, en Creditinfo var sagt hafa boðið margfalt hærra, um 250-300 milljónir króna, en því boði hafi verið hafnað.

Ekkert fæst upp í almennar kröfur
Árið 2017 keypti sænska félagið Capacent Holding AB, sem er með skrifstofur í Svíþjóð og Finnlandi, svo um 66% í því íslenska. Í tilkynningu sænska móðurfélagsins vegna gjaldþrotsins í fyrra sagði að ákvörðunin um að óska eftir gjaldþrotaskiptum hefði verið tekin eftir að ljóst hafi orðið að ekki stefndi í viðsnúning á rekstrinum, sem skilaði 13,6 milljóna króna tapi í fyrra.

Halldór Þorkelsson, framkvæmdastjóri íslenska félagsins, sagði í tilkynningu að árið hefði farið vel af stað, en heimsfaraldurinn hefði fljótt farið að segja til sín og aðstæður versnað verulega. Lýstar kröfur í búið nema 755 milljónum króna. Þar af eru tæpar 250 milljónir forgangskröfur, mestmegnis launakröfur, en restin almennar kröfur. Skiptastjóri tekur ekki afstöðu til almennu krafnanna, þar sem útséð er að ekkert fáist upp í þær.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Stikkorð: Capacent