Breska lággjaldaflugfélagið Easyjet hóf flug hingað til lands tvisvar í viku frá Basel í Sviss fyrir ári síðan, en í október síðastliðnum bættust við jafnmargar ferðir til Genfar. Upphaflega stóð til að flugleiðirnar yrðu starfræktar allt árið um kring, en líkt og Túristi greindi frá í gær er ekki lengur hægt að bóka flug héðan til Genfar frá lokum október.

Í kjölfarið var svo ekki lengur hægt að bóka ferð til Basel yfir háveturinn, líkt og hægt var. Carinne Heinen, upplýsingafulltrúi Easyjet, segir nú í svari til Túrista að frá og með október næstkomandi muni flugfélagið aðeins fljúga til Íslands frá Genf yfir sumartímann og flugið frá Basel verði lagt niður frá lokum nóvember og fram í febrúar. Haft verður samband við farþega sem áttu bókuð sæti utan þess tíma og þeim boðin full endurgreiðsla.

Auk Easyjet býður Icelandair upp á áætlunarflug til Genfar yfir sumarmánuðina og fljúga vélar íslenska félagsins auk þess allt að fimm sinnum í viku til Zurich frá vori og fram á haust.