Verðbólga hefur farið ört lækkandi að undanförnu og hefur ekki verið minni síðan í apríl2011. Á þeim tíma var ársverðbólga undir markmiði Seðlabankans (2,5%) í fjóra mánuði í röð. Verðbólga er nú 3,1%, miðað við síðustu tólf mánuði, en búast má við að hún lækki enn frekar þegar Hagstofan birtir neysluverðsvísitöluna fyrir febrúarmánuð þar sem verðbólga var sérstaklega mikil í febrúar í fyrra. Þá hækkaði verðlag um 1,6% í þeim eina mánuði eða um 21,5% ef verðlagshækkunin er reiknuð á ársgrundvelli. Ef verðbólga helst hófleg í febrúar í ár þá mun 12 mánaða verðbólga því fara enn frekar lækkandi.

Fram kemur í Peningamálum Seðlabankans sem komu út í dag samhliða vaxtaákvörðun, að búist sé við því að verðbólga verði yfir verðbólgumarkmiðum á næstu árum.

Næstu þrír mánuðir þar á eftir gætu orðið erfiðari þar sem verðlag hækkaði lítillega frá mars til maí í fyrra. Í fyrra hækkaði verðlag um 0,2% í mars og apríl, um 2,4% uppreiknað á ársgrundvelli, en lækkaði lítillega í maí. Þetta endurspeglast í spám greiningaraðila sem rýnt er í hér til hliðar sem gera ráð fyrir hækkandi verðbólgu eftir að tölurnar fyrir febrúar liggja fyrir. Í fyrra höfðu hækkanir á fatnaði, skóm, húsgögnum og heimilisbúnaði, bensíni og ferðakostnaði mikil áhrif á vísitöluna í febrúar. Áhrifin af útsölulokum eru augljós í sumum þessara flokka og verður því áhugavert að sjá hvort áhrifin ná að verða jafn sterk þetta árið.

Húsnæðisverðbólgan áhyggjuefni

Einn þáttur sem meðal annars Samtök atvinnulífsins hafa bent á að geti ógnað verðstöðugleika á næstu mánuðum er húsnæðisverðbólga. Samtals vegur húsnæðisþátturinn, reiknuð húsaleiga og greidd húsaleiga um 18% í neysluverðsvísitölunni. Eins og samtökin hafa bent á þá hækkaði reiknuð húsaleiga um 8,8% síðustu 12 mánuði og greidd húsaleiga um 7,8% þannig að samanvegið hækkaði húsaleiga um 8,6%. Húsaleiga hafði því 1,5% áhrif af þeim 3,1% hækkun verðlagsvísitölunnar á síðustu 12 mánuðum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið allt hér að ofan undir liðnum tölublöð .