Fjármálaeftirlitið ( FME ) framkvæmdi athugun á lánveitingum Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins til einstaklinga. Að mati FME eru fyrrgreindar lánveitingar lífeyrissjóðsins í samræmi við gildandi lög, fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða og lánareglur lífeyrissjóðsins.

Athugunin leiddi hins vegar í ljós að í fjórum tilvikum veitti lífeyrissjóðurinn lán þar sem litið var framhjá 10% varúðarálagi á reiknuð mánaðarleg útgjöld lánsumsækjenda, sem lífeyrissjóðurinn lítur venjulega til við mat á greiðsluhæfi þeirra.

Fjármálaeftirlitið beindi því til lífeyrissjóðsins að setja sér reglur varðandi yfirferð á greiðslumati og tryggja með því samræmda framkvæmd við lánveitingar. Athugun FME var framkvæmd á öðrum ársfjórðungi 2013 með öflun gagna vegna 20 stærstu útlána lífeyrissjóðsins til einstaklinga og fyrirspurnum í tengslum við þau gögn.