Lítið gegnsæi ríkir á markaði með skortsölu hér á landi. Þetta segir Jóhann Gísli Jóhannesson sjóðsstjóri, hlutabréfa og fyrirtækjaskuldabréfasjóða hjá GAMMA, en hann flutti erindi um skortsölu á fundi Ungra fjárfesta fyrir stuttu.

„Í flestum kauphöllum erlendis er uppfært reglulega hvað mikið er útistandandi í skortstöðu.“ Jóhann segir að slíkt kerfi sé ekki við lýði hér á landi en æskilegt væri að Kauphöllin tæki upp slíkt kerfi svo allir aðilar á markaði hefðu sömu upplýsingar. Til þess að það sé mögulegt þyrfti ákveðnar lagabreytingar til.

„Þetta getur orðið til þess að aðili sem á mikið af bréfum sem hann getur lánað með meiri upplýsingar en markaðurinn um hvað er verið að skortselja,“ segir hann.

Hann segir að að virkur skortsölumarkaður eigi að draga úr sveiflum á markaði og þannig skapa heilbrigðari verðlagningu. Þetta geti dregið úr líkum á hlutabréfabólu. „Þegar þú getur bara keypt bréf á markaði þá skapar það hvata sem eru ekki eðlilegir á markaði.“

Jóhann bendir á að lífeyrissjóðirnir líti svo á að þeir megi ekki stunda skortsölu né lána bréf og Fjármálaeftirlitið sé sammála þeirri túlkun. „Skortur á lánsbréfum er oft stærsta vandamálið við skortsölu á Íslandi þar sem þeir eru stærstu fjárfestarnir í flestum skráðum hlutafélögunum. Þannig að það er búið að taka út stóran hluta af þeim bréfum sem mögulegt er að fá lánað.“

Í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins er fjallað um nýtt frumvarp um breytingar á fjárfestingarheimildum lífeyrissjóða sem eykur möguleika fjárfesta á að skortselja verðbréf. Áskrifendur geta nálgast rafrænt eintak af blaðinu hér .