Loðnuleitarleiðangur Hafrannsóknastofnunar hófst fimmtudaginn 16. janúar. Þegar Fiskifréttir heyrðu í Birki Bárðarsyni leiðangursstjóra síðdegis á þriðjudag hafði lítið sést af loðnu fyrir austan land og norðan.

„Það er ekki að sjá að hún sé gengin austur fyrir Kolbeinsey, en við höfum alveg séð dæmi þess að hún komi svona seint. Sérstaklega undanfarin ár.“

Aftur var slegið á þráðinn til Birkis nú í morgun eftir að svæðið vestur af Kolbeinseyjarhrygg og allt vestur á Kögurgrunn hafði verið kannað. „Við fundum loðnutorfur þarna með landgrunnskantinum, en ekki í miklu magni. Það var ekki eins mikið og maður hefði vonað. Ekki neitt sem gefur tilefni til að það verði gefinn út kvóti.“

Ekki hefur viðrað vel það sem af er leiðangrinum og fyrirsjáanlegt að fleiri bræludagar séu framundan. Nú eru þrjú skip í loðnuleitinni, hafrannsóknaskipið Árni Friðriksson ásamt fiskiskipunum Polar Amarok og Hákoni. Til að byrja með voru tvö önnur skip með í för, Ásgrímur Halldórsson og Bjarni Ólafsson.

Skipin eru nú komin í var á Ísafirði en halda væntanlega út aftur á morgun til að klára svæðið út af Vestfjörðum.

Samfelld yfirferð mikilvæg

„Við höfum gert þetta í auknum mæli að vera í samstarfi við útgerðir og reyna að vinna þetta hratt og vel með mörgum skipum. Við fáum svo litla veðurglugga en það er svo mikilvægt að fá samfellda yfirferð þegar við erum að mæla.“

Loðnubresturinn í fyrra hafði veruleg áhrif á fyrirtæki og bæjarfélög á Austfjörðum og Suðurlandi. Hagfræðideild Landsbankans telur að bregðist loðnan annað árið í röð kæmi það harðast niður á Vestmannaeyjum, enda hafa Vestmannaeyjar verið stærsta löndunarhöfn loðnu á síðustu árum.

Á árunum 2016 til 2018 var að meðaltali 29% aflans landað þar, en næst kemur Neskaupstaður með 22% aflans og síðan Vopnafjörður með 11,5% löndunar.

Mikil óvissa ríkir um stofnstærð loðnu og þar með um loðnuvertíð ársins en frá því loðnuveiðar hófust hér við land árið 1963 hefur loðnubrestur aldrei orðið tvö ár í röð.

Einungis tólf fyrirtæki

Í Hagsjá Landsbankans, sem birt var síðastliðinn föstudag, segir að loðna hafi lengi verið ein mikilvægasta útflutningsvara sjávarútvegsins og á síðustu árum hafi hún skilað næstmesta útflutningsverðmætinu á eftir þorski.

„Öfugt við marga aðra fiskistofna og þá sérstaklega botnfiskstofna dreifast tekjur af loðnu tiltölulega lítið milli fyrirtækja og byggðarlaga. Þannig voru einungis 12 fyrirtæki með veiðirétt á loðnu í fyrra. Þau fjögur fyrirtæki sem eru með mestu hlutdeildina eru samtals með 64,9% eða tæplega 2/3 kvótans,“ segir í Hagsjánni.

„Hámarkshlutdeild í loðnu á hvert eitt fyrirtæki er 20%. Ísfélag Vestmannaeyja er mjög nálægt því þaki en hlutdeild fyrirtækisins er 19,99%. Næsta félag á eftir er Brim með 18%, síðan kemur Síldarvinnslan með 16% og Vinnslustöðin með 10,9%. Þau félög sem eru með minnstu hlutdeildina eru Loðnuvinnslan Fáskrúðsfirði (1,75% hlutdeild), Huginn (1,4%) og Rammi (0,65%).“