Miðstjórn Alþýðusambands Íslands lýsir yfir vonbrigðum með framkomnar tillögur stjórnarmeirihlutans við aðra umræðu fjárlagafrumvarpsins fyrir árið 2015 í nýrri ályktun frá sambandinu sem birtist í dag. Þar segir að lítið sé komið til móts við þá gagnrýni sem miðstjórn Alþýðusambandsins og aðildarsamtök ASÍ settu fram í haust.

Helst gagnrýnir ASÍ hækkun á matarskatti, styttingu á bótatíma atvinnulausra, að ríkið greiði ekki umsamið framlag til Starfsendurhæfingasjóðs, skerðingu á framlögum til jöfnunar örorkubyrði lífeyrissjóða, aukningu á kostnaði sjúklinga í heilbrigðiskerfinu, engin aukin framlög til úrbóta í húsnæðismálum og skertum möguleikum fólks á vinnumarkaði til að sækja nám í framhaldsskólum.