Stórkaupavístalan hækkaði um eitt stig milli ársfjórðunga í síðustu mælingu Gallup og er tveimur stigum hærri nú en í sama fjórðungi á síðasta ári. Gallup birtir vísitöluna ársfjórðungslega en hún mælir áhuga á stærri kaupum á borð við bifreiðum, utanlandsferðum og húsnæði.

Meiri áhugi mælist nú á bifreiðakaupum nú en í síðustu mælingu, en vísitalan mælist nú 27 stig og hækkar um tvö stig milli mælinga. 15% aðspurðra töldu annað hvort frekar eða mjög líklegt að þeir myndu kaupa bifreið á komandi fjórðungum. Greiningardeild Íslandsbanka segir það vekja athygli að á sama tíma og talsverður hugur virðist í landsmönnum varðandi bílakaup hafi nýskráningum bifreiða fækkað veruleg undanfarin misseri. Nýskráningar séu þó álíka margar og árið 2016.

Heldur dregur úr áhuga á utanlandsferðum í könnun Gallup. Viðkomandi vísitala mælist nú 169 stig sem er þó aðeins tveimur stigum lægri en á sama tíma og og í fyrra. Greiningardeild Íslandsbanka veltir því upp hvort sólríkjan að undanförnu kunni að hafa áhrif svarendur í ljósi þess að fyrir ári síðan hafi vart hundi verið út sigandi vegna vætutíðar og vosbúðar.

Greiningadeildin segir mælinguna til marks um meiri tögg í einkaneyslunni en útlit hafi verið fyrir.

„Væntingavísitalan ásamt stórkaupavísitölunni gefa áhugaverðar vísbendingar um mögulega þróun einkaneyslu. Þótt júnígildi VVG endurspegli vaxandi svartsýni meðal íslenskra heimila var meðaltal 2. ársfjórðungs nánast hið sama og meðaltal 1. ársfjórðungs. Kortaveltutölur fyrir apríl og maí birta áþekka mynd af þróuninni á fyrri árshelmingi. Líkt og Seðlabankinn minntist á við vaxtaákvörðun sína í vikunni kann því að reynast meiri seigla í einkaneysluvexti landsmanna enn sem komið er en margir bjuggust við eftir fall WOW Air og versnandi horfur á vinnumarkaði í kjölfarið. Við teljum þó að tímans þungi straumur muni á endanum vinna á þessum staðfasta neysluvilja íslenskra heimila og að heimilin muni almennt halda meira að sér höndum á seinni helmingi ársins,” segir í greiningu deildarinnar á vefsíðu Íslandsbanka