Áhugavert er að skoða tölur um launakostnað sveitarfélaganna á hvern íbúa í Árbók sveitarfélaga, sem kom út á dögunum. Lítið samhengi er á milli stærðar sveitarfélaga og launakostnaðar á hvern íbúa. Stærðarhagkvæmni virðist því lítil. Launakostnaður a- og B-hluta sveitarfélaganna á hvern íbúa hleypur á bilinu 736.004 krónur í reykhólahreppi til 37.989 króna í Akrahreppi.

Launakostnaður á hvern íbúa í Reykjavík er 399.537 krónur, 298.663 krónur í Kópavogi, 301.180 krónur í Hafnarfirði og 494.243 krónur á Akureyri. Dæmi um gríðarmikinn mun er að launakostnaður í Tálknafjarðarhreppi, þar sem íbúar eru 279, er 388.093 krónur á mann, á meðan launakostnaður í Reykhólahreppi, þar sem íbúar eru 270 talsins, er 736.004 krónur á mann.

Skuldir á hvern íbúa eru einnig mjög mismunandi eftir sveitarfélögum og eins og með launakostnaðinn virðist sem samhengi milli stærðar og skuldsetningar sé lítið. Skuldir og skuldbindingar a-hluta Hveragerðisbæjar eru 2.380.888 krónur á hvern íbúa á meðan þær eru 49.375 krónur í Skagabyggð. Skuldir á hvern íbúa Reykjavíkur eru 479.486 krónur, 1.063.633 krónur í Kópavogi, 1.171.302 krónur í Hafnarfirði og 864.377 krónur á Akureyri.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf útgáfu af blaðinu undir liðnum Tölublöð hér að ofan.