Svigrúm útflutningsgreina landsins til launahækkana er lítið sem ekkert. Þetta er meðal þess sem fram kemur í könnun Samtaka atvinnulífsins meðal aðildarfyrirtækja. Í könnuninni var spurt um hvað þau teldu svigrúm til launahækkana vera á næsta ári.

Að jafnaði töldu ferðaþjónustufyrirtækin svigrúmið vera 1,2%, fyrirtæki í útflutningi vöru og þjónustu töldu það vera 1,9% en önnur fyrirtæki 2,1%. Meðalniðurstaðan er því 1,9%.

„Ljóst er að það hefur harðnað verulega á dalnum í ferðaþjónustu en að jafnaði töldu 65% ferðaþjónustufyrirtækja ekkert svigrúm fyrir hendi til launahækkana á næsta ári. Staðan er svipuð í öðrum greinum en rúmlega helmingur útflutningsfyrirtækja taldi ekkert svigrúm til launahækkana og 36% annarra fyrirtækja. Að meðaltali telja 43% forsvarsmanna ekkert svigrúm til launahækkana 2019," segir í frétt á vef SA.

Frá upphafi árs 2015 hafa regluleg laun hækkað um 33% samkvæmt tölum frá Hagstofunni. Þá voru lágmarkslaun kjarasamninga hækkuð um 40% og hefur kaupmáttur laun aukist um 24%.