Engar formlegar viðræður eru hafnar um kaup lífeyrissjóðanna á Arion banka, að sögn Hauks Hafsteinssonar, framkvæmdastjóra Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. „Menn hafa hist og rætt málin með óformlegum hætti, en engar formlegar viðræður hafa átt sér stað.“ Hann segir að ekki hafi verið boðað til nýs fundar milli lífeyrissjóðanna og slitastjórnar Kaupþings, sem hefur með söluna að gera.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hafa viðræðurnar dregist að hluta til vegna anna hjá slitastjórninni í tengslum við afgreiðslu nauðasamnings, en það skýri þó ekki að fullu af hverju ekki sé meiri hraði í viðræðunum.

Stærstu lífeyrissjóðir landsins, LSR, Lífeyrissjóður verslunarmanna og Gildi lífeyrissjóður lýstu því yfir fyrir tveimur vikum að þeir vildu hefja viðræður við slitastjórnina um kaup á Arion banka og buðu öllum öðrum lífeyrissjóðum landsins að taka þátt í kaupunum með sér. Markmiðið væri að bjóða hluta hlutafjár bankans út í almennu útboði á sama kaupgengi og lífeyrissjóðirnir sjálfir myndu kaupa bankann á.

Fram að því höfðu fjármálafyrirtækin Arctica Finance og Virðing verið að safna saman fjárfestum til kaupa á Arion, meðal annars meðal lífeyrissjóðanna. Lífeyrissjóðirnir ákváðu hins vegar að taka ekki þátt í þeim verkefnum, heldur ákváðu að standa sjálfir að viðræðunum.