„Það er sáralítið til í búinu upp í kröfur,“ segir lögmaðurinn Sveinn Sveinsson, skiptastjóri þrotabús Björgólfs Guðmunds­sonar, fyrrverandi auð­manns og formanns bankaráðs gamla Landsbankans. Hér­aðsdómur Reykjavíkur féllst í júlí árið 2009 að beiðni Björgólfs sjálfs, að úrskurða hann persónulega gjaldþrota. Björgólfur var kjölfestufjárfestir í Landsbankanum, hélt á stórum hlut í Eimskip, fjárfestingarbankanum Straumi og fleiri félögum, þar á meðal í breska knattspyrnufélaginu West Ham.

Björg­ólfur var í persónulegum ábyrgðum fyrir skuldum fjölda félaga sem hann átti hlut í.

Lýstar kröfur í þrotabú Björgólfs námu rétt rúmum 100 milljörðum króna. Sveinn segir að samþykktar kröfur í þrotabúið séu nokkuð lægri.

Skiptastjóri þrotabúsins hefur boðað lánardrottna Björgólfs til skiptafundar 21. maí næstkomandi og mun þá verða greint frá því hvað þeir bera úr býtum eftir að þeim eignum sem voru í þrotabúinu hefur verið komið í verð.