Það verður lítið um bifreiðakaup hjá landsmönnum á næstu sex mánuðum samkvæmt stórkaupavísitölu Gallup sem birt var síðastliðinn þriðjudag. Vísitalan stendur nú í 18,4 og lækkaði um 2,4 stig frá júní mælingu vísitölunnar. Greining Íslandsbanka gerir þessu skil í dag.

Telja 3,8% mjög líklegt að þeir muni kaupa bifreið á næstu sex mánuðum og 7,1% að það sé frekar líklegt. Stærð bílaflota landsmanna getur haft töluverð áhrif á tryggingafélög landsins þar sem bifreiðatryggingar eru stærsta tryggingagrein félaganna

Í fyrra komu 46,5% tekna tryggingafélaganna af tryggingarrekstri frá bifreiðatryggingastarfsemi, samkvæmt samanteknum tölum FME, og 36% hagnaðar.

En bílaviðskiptin skipta máli fyrir fleiri en tryggingafélögin. Þannig fullyrðir Erna Gísladóttir, forstjóri BL, að spá megi fyrir um hagsveiflur með því að rýna í tölur um bílasölu. Þannig fullyrti hún við Kjarnann að bílasala um þessar mundir væri ekki mikil. Íslendingar væru að sigla inn í lægð ef ekki væri haldið rétt á spilunum.