„Þetta liggur í hvötunum. Ef hvatakerfi er rétt þá er talið að fólk leggi sig meira fram í vinnunni,“ segir Katrín Ólafsdóttir, lektor við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík. Mun minna er um notkun árangurstengdrar umbunar starfsmanna hér á landi en í nágrannalöndunum en hvatagreiðslur eru notaðar í innan við fimmtungi fyrirtækja hér á landi á meðan hlutfallið í samanburðarlöndum okkar er á bilinu 40-60%.

Hér er algengast að umbun sé í formi fastrar yfirvinnu og eru hvatagreiðslur tengdar einstaklingsmarkmiðum eða frammistöðu sjaldgæfar. Þetta þykir sérfræðingum í mannauðsstjórnun miður og segja þeir vel útfærð umbunarkerfi geta aukið framleiðni innan fyrirtækja.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í Cranet rannsókn Rannsóknarmiðstöðvar í mannauðsstjórnun við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .