Lýtalæknar eru á meðal þeirra sérfræðinga sem ekki hafa skilað upplýsingum til embættis landlæknis þrátt fyrir innköllun embættisins. Það leiðir til þess að ekki liggja fyrir upplýsingar um ýmsar aðgerðir sem gerðar eru árlega á konum. Það var Líneik Arna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokks, sem spurði Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra fyrir mánuði ýmissa spurninga er vörðuðu fegrunar- og lýtaaðgerðir á kynfærum kvenna.

Líneik spurði m.a. hversu margar lýtaaðgerðir eru gerðar árlega á kynfærum kvenna, hversu margar eru gerðar á skapabörmum og fleiru, s.s. um brjóstastækkanir.

Fram kemur í svari heilbrigðisráðherra að ekki liggi fyrir upplýsingar hjá embætti landlæknis um fjölda þeirra aðgerða sem spurt er um. Landlæknir innkalli árlega upplýsingar frá öllum sjálfstætt starfandi sérfræðingum á landinu, þar á meðal lýtalæknum. Hafi skil sérfræðinga á starfsemisupplýsingum til embættisins aukist ár frá ári, en aukin innleiðing á rafrænni sjúkraskrá auðveldi gagnaskilin. Yfir 90% sérfræðinga skiluðu inn starfsemisupplýsingum til embættisins fyrir árið 2012. Lýtalæknar eru hins vegar á meðal þeirra sérfræðinga sem ekki hafa skilað upplýsingum til embættisins. Af þeim ástæðum er lítið um fleiri svör.