*

mánudagur, 22. júlí 2019
Innlent 20. febrúar 2017 16:10

Lítil ánægja með stjórnarsáttmála

Fjórir af hverjum tíu voru óánægðir með innihald stjórnarsáttmálans, nær 38% hvorki ánægð né óánægð en rúm 22% ánægð.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Í nýrri könnun Gallup um stjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar og stjórnarsáttmála flokkanna þriggja kemur meðal annars fram að stór hluti þeirra sem þekktu eitthvað til innihalds stjórnarsáttmálans voru ekki ánægðir með hann. Fjórir af hverjum tíu voru óánægðir með innihald hans, nær 38% hvorki ánægð né óánægð en rúm 22% ánægð. Þetta kemur fram í nýjum þjóðarpúlsi Gallup.

Einnig voru einstaklingar spurðir út í viðhorf sitt gagnvart stjórnarsamstarfi flokkanna þriggja. Um helmingur þeirra sem taka afstöðu til spurningarinnar er óánægður með það, eða nær 51%, nær fjórðungur er ánægður og sama hlutfall hvorki ánægt né óánægt.

Karlar eru almennt ánægðari með stjórnina en konur. Munur mælist einnig á viðhorfi fólks eftir aldri, þeir sem eru yngri en 30 ára eru síður óánægðir með stjórnina en þeir sem eldri eru. Þeir sem hafa hærri fjölskyldutekjur eru almennt ánægðari með stjórnina en þeir sem hafa lægri fjölskyldutekjur.

Takmörkuð þekking á stjórnarsáttmálanum

Í könnuninni er jafnframt spurt út í þekkingu á stjórnarsáttmálanum. Tæplega þriðjungur telur sig þekkja innihald stjórnarsáttmála nýju ríkisstjórnarinnar vel, 37% telja sig hvorki þekkja það vel né illa og um þrír af hverjum tíu telja sig þekkja það illa.

Tekið er fram að samkvæmt könnun Gallup töldu karlar sig frekar en konur þekkja stjórnarsáttmálann vel og munur virðist á þekkingu fólks eftir aldri. Þeir sem hafa lokið háskólaprófi telja sig frekar þekkja innihald sáttmálans vel en þeir sem hafa minni menntun á baki. Einnig mælist munur eftir fjölskyldutekjum.

Niðurstöðurnar eru byggðar á netkönnun sem framkvæmd var dagana 1. til 12. febrúar. Heildarúrtaksstærð var 1.402 og þátttökuhlutfall 59,5%.