Arðsemi eigin fjár hjá MP banka á fyrstu sex mánuðum ársins var aðeins um 2,3%. Sigurður Atli Jónsson, Forstjóri MP, segir lága arðsemi ekki vera áhyggjuefni þegar hann er inntur eftir viðbrögðum. „Bankinn hóf starfsemi í núverandi mynd fyrir rúmum tólf mánuðum. Það eru ákveðin langtímarkmið um arðsemi eigin fjár en það er fráleitt að bankinn nái þeim markmiðum á fyrsta heila starfsárinu. Það er ekki útgangspunktur í okkar markmiðum í dag,“ segir Sigurður Atli.

MP banki birti hálfsársuppgjör sitt í síðustu viku. í árshlutareikningi bankans og afkomutilkynningu var ekkert fjallað um arðsemina. Hagnaður eftir skatta nam 119 milljónum króna og vöxtur mældist á öllum sviðum starfseminnar. Eiginfjárhlutfall bankans var 14,2% í lok júní en alls nam eigið fé þá rúmlega 5,2 milljörðum króna. Fjallað var um afkomuna í síðasta tölublaði Viðskiptablaðsins.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast tölublaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.