Í síðustu viku gaf Þjóðskrá út upplýsingar um ávöxtun af leigu á íbúðarhúsnæði á landsvísu. Niðurstöðurnar virtust gefa til kynna að í flestum samanburðarflokkum væri ávöxtunin almennt lægri miðsvæðis í Reykjavík heldur en í úthverfum hennar og á landsbyggðinni auk þess sem ávöxtun var heldur minni ef leigusali væri fjármálafyrirtæki frekar en einstaklingur. Til dæmis má taka ávöxtun á útleigu þriggja herbergja íbúðar í Reykjavík, vestan Kringlumýrarbrautar og Seltjarnarness.

Þegar leigusali er einstaklingur þá er ávöxtunin 7,4%; 7,8% þegar leigusali er fyrirtæki og 6,4% ef leigusali er fjármálastofnun. Ef sams konar íbúð er skoðuð í Breiðholti er ávöxtunin 8,7% ef leigusali er einstaklingur; 9,6% ef leigusali er fyrirtæki og 8,1% ef leigusali er fjármálastofnun.

Þar sem ávöxtunin sem Þjóðskrá gefur upp tekur ekki tillit til umsýslukostnaðar leigusala eða gangandi markaðsverðs fasteigna er því að vænta ákveðins misræmis á milli raunverulegrar ávöxtunar af leigu á íbúðarhúsnæði og matsins sem Þjóðskrá birtir. Samkvæmt Inga Þór Finnssyni hjá Þjóðskrá Íslands er samantektin ekki hugsuð til að endurspegla nettó ávöxtun af leigu íbúðahúsnæðis.

„Það hefur verið mikil umræða um hversu hátt leiguverð er í miðbænum o.s.frv. Þetta er hugsað að einhverju leyti sem mótvægi við þá umræðu til að sýna fram á að kaupverð er líka dýrt. Það er svona aðallega það sem er verið að benda á,“ segir Ingi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .