*

mánudagur, 2. ágúst 2021
Innlent 20. desember 2007 06:54

Lítil bjartsýni fyrir hönd markaðarins

Ritstjórn

Einn viðmælandi Viðskiptablaðsins segir að markaðurinn sé geðhvarfasjúkur; annað hvort ofurhress (eins og á fyrri hluta árs) eða ofurþunglyndur (eins og nú). Viðmælendur Viðskiptablaðsins eru almennt fremur svartsýnir á ástandið á hlutabréfamarkaði, enda hefur Úrvalsvísitalan hrapað mikið síðan í júlí, þegar hún náði hámarki í tæpum 9.000 stigum. Hin svokallaða lausafjárkreppa hóf innreið sína seinni hluta júlímánaðar og í kjölfarið hefur fjármagn orðið miklum mun dýrara á alþjóðamörkuðum.

Þó bar á því meðal fagfjárfesta sem blaðið ræddi við að þeir væru komnir með nóg af svartsýnisrausi fjármálaheimsins – einn orðaði það svoleiðis að markaðurinn væri með geðhvarfasýki. Fyrir fallið hafi enginn fjárfestir séð annað en endalausa hækkun, en núna sjái enginn ljósglætu í myrkrinu. „Efnahagslífið stöðvast ekki – fólk hættir ekki að lifa lífinu – þótt fjármögnun banka verði erfiðari,“ sagði hann og gremju gætti í röddinni.

Viðskiptablaðið fjallar í dag um ástandið á fjármála- og hlutabréfamörkuðum. Meðal annars er rætt við forstöðumenn greiningadeilda bankanna. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér á pdf formi. Þeir sem ekki eru með þannig aðgang geta sótt um hann á vb@vb.is