Lítil hreyfing var á hlutabréfamörkuðum í Evrópu í dag þó svo að FTSE 300 vísitalan, sem mælir helstu hlutabréfavísitölur Evrópu, hafi hækkað um 0,2%.

Að sögn Reuters fréttastofunnar virðast áhyggjur fjárfesta af slæmum afkomutölum fyrirtækja fara dvínandi en ekki var þó mikið um viðskipti í dag, frekar en síðustu vikur.

Bankar og fjármálafyrirtæki hækkuðu lítillega en þeir hafa lækkað nokkuð síðustu daga. Royal Bank of Scotland hækkaði til að mynda um 8,3% og Credit Agricole u 3,2% en aðrir minna.

Bílaframleiðendur hækkuðu lítillega en BMW hækkaði um 2% og Daimler um 3,1%.

Í Lundúnum lækkaði FTSE 100 vísitalan um 0,3% en í Amsterdam hækkaði AEX vísitalan um 0,3% og í Frankfurt hækkaði DAX vísitalan um 0,1%.

Í París stóð CAC 40 vísitalan í stað en í Sviss lækkaði SMI vísitalan um 1,3%.

Í Kaupmannahöfn lækkaði OMXC vísitalan um 1,1% og í Osló lækkaði OBX vísitalan um 0,5% en í Stokkhólmi hækkaði OMXS vísitalan um 0,1%.