Velta í dagvöruverslun jókst um 0,4% á föstu verðlagi í desember miðað við sama mánuð í fyrra og jókst um 6,5% á breytilegu verðlagi. Leiðrétt fyrir árstíðabundnum þáttum jókst velta dagvöruverslana í desember um 0,7% frá sama mánuði í fyrra.

Þetta kemur fram í umfjöllun Rannsóknarseturs verslunarinnar (RSV) um smásöluverslun í desember. Þar kemur fram að verð á dagvöru hefur hækkað um 6,1% á síðastliðnum 12 mánuðum.

Mest var aukningin í sölu á raftækjum eða 15,2% á föstu verðlagi og um 10,3% á breytilegu verðlagi. Þá jókst velta í skóverslun um 4,5% á föstu verðlagi en 8,6% á breytilegu verðlagi. Loks jókst velta húsgagnaverslana um 0,6% á föstu verðlagi.

Mesti samdrátturinn var þó í fataverslun en þar dróst velta saman um 3,2% á föstu verðlagi og 2,8% á breytilegu verðlagi. Þá dróst sala á áfengi saman  um 0,9% á föstu verðlagi en jókst um 2,6% á breytilegu verðlagi.

Fram kemur í skýrslu RSV að þrátt fyrir að áfengisgjald hafi hækkað um 5,1% um áramótin varð það ekki til þess salan ykist síðustu daga ársins. Þvert á móti dróst sala áfengis í lítrum talið saman um 7% dagana 27. – 31. desember frá sama tíma árið áður samkvæmt tilkynningu ÁTVR.

„Verslun í desember endurspeglar að miklu leyti þá þróun sem varð í smásöluverslun þegar horft er til alls ársins 2011 miðað við árið 2010,“ segir í skýrslu RSV.

Sjá skýrsluna í heild sinni.