Gjaldþrot fjárfestingabankans Lehman Brothers, nauðungarsala Merrill Lynch til Bank of America og væntanlegt neyðarlán fjármálafyrirtækisins AIG hjá Seðlabanka Bandaríkjanna upp á 40 milljarða dollara – allt þetta hefur mikil áhrif á skuldatryggingaálög um allan heim. Álög allra fjármálafyrirtækja hafa hækkað mikið.

Sagt frá var frá því í morgun á vb.is að skuldatryggingaálag íslensku bankanna hafi hækkað mikið. Tölurnar sem notaðar voru í þeirri frétt komu frá fjárfestingabankanum Credit Suisse og tóku mið af kaup- og sölutilboðum á álag bankanna við opnun markaða. Sé litið til talna frá bönkunum UBS eða Bank of America er skuldatryggingaálag íslensku bankanna nokkuð hagfelldara.

Lítil eða engin viðskipti eru með skuldatryggingaálag íslensku bankanna, og verð skuldatrygginga  sem er gefið upp að morgni er einfaldlega miðgildi kaup- og sölutilboði álagsins. Til að mynda var mikið bil á kaup- og sölutilboðum á álag Glitnis í morgun – 800/1050.

Hækkun álags íslensku bankanna er hlutfallslega á svipuðum slóðum og hjá öðrum fjármálafyrirtækjum. Þó má ætla að hækkun Landsbankans sé hlutfallslega ívið meiri, en álagið hækkaði um 50% í morgun samkvæmt tölum Credit Suisse.