Í Morgunkorni Glitnis segir að lífeyrissjóðirnir hafi ekki farið varhluta af umróti á fjármálamörkuðum í ágúst og verulega hægði á eignaaukningu þeirra í mánuðinum. Á fyrstu sjö mánuðum ársins var hrein eignaaukning 1,3% að meðaltali í mánuði en einungis 0,4% í ágúst. Í lok ágústmánaðar nam hrein eign lífeyrissjóða 1.644 ma.kr. og jókst um 6,4 ma.kr. í mánuðinum. Mestu munar um innlenda eign í hlutabréfum sem lækkaði um 7,8% frá júlílokum til ágústloka. Það má að hluta skýra með lækkun hlutabréfaverðs en Úrvalsvísitala Aðallista lækkaði um 4% á tímabilinu en einnig hefur verið um sölu á hlutabréfum að ræða. Ársvöxtur hreinnar eignar til greiðslu lífeyris hefur verið á bilinu 16%-21% á fyrstu mánuðum ársins sem er nokkru minni vöxtur en var á árinu 2006 eða 22%-29%. Þetta kemur fram í tölum um efnahag lífeyrissjóða sem Seðlabankinn birti í gær.

Eignaaukning í skuldabréfum
Eignaaukning lífeyrissjóðanna í ágúst má alfarið rekja til 1,1% eignaaukningar í skuldabréfum og reyndar gott betur. Bak við þá eignaaukningu eru nokkuð jöfn skipti milli bréfa útgefnum af ríkissjóði, íbúðabréfa og sjóðfélagalána en allir þessir flokkar jukust um nálægt 2 ma.kr. í mánuðinum. Eign í verðbréfum með breytilegum tekjum dróst hins vegar saman um 0,7% í mánuðinum sem má alfarið rekja til samdráttar í eign á innlendum hlutabréfum. Líklegt er að þessi þróun verði einnig uppi á teningnum í september en Úrvalsvísitala Aðallista lækkaði um tæplega 3% í septembermánuði.