Ítalska hagkerfið er enn að glíma við langtímavandamál vegna minnkandi samkeppnishæfni ítalskra fyrirtækja á alþjóðlegum mörkuðum. Þrátt fyrir að hagvöxtur á síðasta ári hafi mælst tvö prósent - sá mesti síðan árið 2000 - þá þurfa að eiga sér stað margvíslegar efnahagsumbætur til þess að ítalska hagkerfið nái að halda áfram að vaxa, að mati Thommaso Padoa-Schioppa, fjármálaráðherra landsins. Í síðustu viku hækkaði framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (ESB) hagvaxtarspá sína fyrir Ítalíu á þessu ári, úr 1,4% upp í 2%.

Padoa-Schioppa sagði að Ítalía þyrfti að auka framleiðni, fjölga störfum á vinnumarkaði, stækka meðalstærð fyrirtækja og bæta lög og reglu, ef landið ætlaði að viðhalda tvö prósent hagvexti á næstu árum. Fjármálaráðherrann sagði ennfremur að hvort efnahagsbati Ítalíu héldi áfram væri að mestu undir því komið að það tækist að örva innlenda eftirspurn í hagkerfinu.

Atvinnuleysi hefur verið að minnka að undanförnu á Ítalíu. Samkvæmt nýjustu tölum mældist atvinnuleysi í landinu 6,8%, sem er það minnsta í fjórtán ár. Hins vegar er atvinnuþátttaka Ítala enn með því lægsta sem þekkist í ESB, en aðeins um sextíu prósent á aldrinum 15 til 64 ára eru með vinnu. Padoa-Schioppa viðurkenndi að þetta væri eitthvað sem þyrfti að laga. "Við erum með alltof lága atvinnuþátttöku og framleiðni. Við þurfum að fjarlægja þá þætti sem koma í veg fyrir að fólk fari út á vinnumarkaðinn."

Hagfræðingar hafa bent á að aukinn launakostnaður og sérhæfing ítalskra útflutningsfyrirtækja á markaði í Evrópu þar sem hagvöxtur hefur verið lítill undanfarin áratug, séu helstu ástæður þess að samkeppnishæfni þeirra hafi versnað, einkum gagnvart Kína og öðrum Asíuríkjum. Padoa-Schioppa mælir þess vegna með enn meiri sérhæfingu hjá ítölskum fyrirtækjum, samrunum og yfirtökum með það að markmiði að búa til stærri og öflugri fyrirtæki, sem séu betur í stakk búin til að keppa á alþjóðlegum mörkuðum.