Þegar litið er á daglega fylgni verðbreytinga á íslenska markaðnum (ICEX-15) við þá evrópsku hlutabréfamarkaði sem greiningardeild lítur jafnan á til samanburðar, má sjá að hún er lítil, segir greiningardeild Kaupþings banka.

?Frá ársbyrjun 2000 til loka árs 2005 hefur mesta fylgnin verið við norsku OBX vísitöluna og dönsku KFX vísitöluna (11%) og minnsta við þýsku DAX vísitöluna (5%). Síðastliðin tvö ár hefur fylgnin þó heldur verið að aukast og má líklega rekja þá aukningu meðal annars til aukinnar alþjóðavæðingar," segir greiningardeildin.

Útrás

Íslensk fyrirtæki eru í síauknu mæli með starfssemi á erlendri grundu, erlendar fjárfestingar fjármálafyrirtækja hafa aukist sem og að erlendir aðilar hafa komið með fjármuni hingað til lands og fjárfest.

?Virðist sem þetta hafi gert það að verkum að aðstæður á erlendum mörkuðum eru farnar að hafa meiri áhrif á íslenska markaðinn, ef marka má til að mynda vísbendingar um aukna fylgni á fyrri hluta þessa árs," segir greiningardeildin.

Þrátt fyrir að tölfræðileg marktækni sé ekki fyrir hendi í samanburði getur það gefið til kynna um þá þróun sem orðið hefur.

Fylgni við norska markaðinn

?Frá ársbyrjun til loka júní þessa árs var mesta fylgnin við norsku OBX vísitöluna eða 28% og minnsta við þýsku DAX vísitöluna og sænsku OMX vísitöluna eða 15% sem verður að teljast lítil fylgni. Þá virðist almennt séð sem fylgni íslenska hlutabréfamarkaðsins við þá erlendu hafi aukist þegar ávöxtun íslenskra hlutabréfa lækkar," segir greiningardeildin.