Laun hækkuðu að meðaltali um 4,7% á síðasta ári sem er minnsta hækkun síðan 1995 eða í níu ár. Þetta kemur fram í tölum sem Hagstofan birti í morgun. Á síðustu tíu árum hafa laun hækkað að meðaltali um 6,5% á ári. Launahækkanirnar á árinu 2004 voru því nokkuð undir langtímameðaltali. Ástæður þessa felast bæði í kjarasamningsbundnum hækkunum sem og almennri stöðu á vinnumarkaðari sem í fyrra einkenndist af meiri slaka en mörg undanfarin ár. Í Morgunkorni Íslandsbanka er bent á að reikna má með því að þessi staða breytist í ár þar sem slaki á vinnumarkaði mun snúast í spennu. Reiknum við með því að laun hækki um 5,8% í ár.

Kaupmáttur launa jókst einnig mjög lítið í fyrra samanborið við árin þar á undan. Í heild jókst kaupmátturinn um 1,5% og er það minnsta aukning kaupmáttar í heilan áratug. Að meðaltali hefur kaupmáttur launa aukist um 3,6% á ári síðastliðin tíu ár

Mest var kaupmáttaraukningin 7,6% árið 1998 en þá fóru saman miklar launahækkanir og lítil verðbólga. "Áratugurinn sem er til samanburðar er hins vegar einstakur í íslenskri hagsögu hvað samfelldan og mikinn vöxt kaupmáttar varðar og ber að skoða í því ljósi. Í raun verður að telja það árangur í sjálfu sér að kaupmáttur hafi aukist í fyrra þar sem kaupmáttaraukning síðustu ára hefur verið mjög mikil og samfeld. Við reiknum með því að kaupmáttur launa aukist enn frekar í ár og að vöxturinn verði meiri en á síðasta ári. Hagvöxtur verður góður og vaxandi spurn eftir vinnuafli. Á sama tíma ætti verðbólgan að haldast nokkuð lág. Við spáum því að kaupmáttur launa hækki um 2,5% í ár," segir í Morgunkorninu.