Hlutabréf í Bandaríkjunum hækkuðu lítillega í kvöld þrátt fyrir neikvæðar fréttir af vinnumarkaði þar í landi. Talið er að fjárfestar telji hið versta að baki eftir að bandaríska vinnumálaráðuneytið opinberaði tölur um aukið atvinnuleysi vestanhafs.

Standard & Poor's hækkaði um 0,2% og Nasdaq bætti við sig 0,3%. Dow Jones-vísitalan stóð nánast í stað.

CNN greinir frá því að fjárfestar í Bandaríkjunum telji hagkerfið á leið inn í samdráttarskeið og því hafi atvinnuleysistölur ekki komið þeim mikið á óvart.

Olía hækkaði í verði í dag og kostaði olíutunnan 104,9 dollara við lokun markaða og hafði hækkað um 2,3%.