Lítil hreyfing var á hlutabréfum í Evrópu í dag og stóð FTSEurofirst 300 vísitalan í stað við lokun markaða eftir að hafa lækkað um 3,5% í síðustu viku.

Þó lækkuðu bankar og fjármálafyrirtæki nokkuð en sem dæmi má nefna að UBS lækkaði um 4,4%, Credit Agricole um 4,5% og Deutsche Postbank hrapaði um 6,2% eftir að þýskir fjölmiðlar greindu frá því að bankinn myndi koma illa út úr mögulegum yfirtökum á næstu misserum. Talsmenn bankans sögðu ekkert til í þeim sögusögnum.

Í Lundúnum hækkaði FTSE 100 vísitalan þó um 0,8% og voru það helst orkufyrirtæki sem leiddu þá hækkun. Shell hækkaði um 1,5% og BP um 1,8% og héldu þar með vísitölunni uppi að sögn Reuters fréttastofunnar.

Í Frankfurt hækkaði DAX vísitalan um 0,2% en Sviss lækkaði SMI vísitalan um 0,6%.

Í Amsterdam og í París stóðu AEX og CAC 40 vísitölurnar í stað.

Í Kaupmannahöfn lækkaði OMXC vísitalan um 0,3%, í Osló lækkaði OBX vísitalan um 0,9% og í Stokkhólmi lækkaði OMXS vísitalan um 2% sem var mesta lækkun á evrópskum mörkuðum í dag.