Hlutabréfamarkaðir í Evrópu hreyfðust lítið í dag á annars rólegum markaðsdegi. Að sögn Reuters fréttastofunnar voru það helst bankar og framleiðslufyrirtæki sem hækkuðu lítillega en á móti lækkuðu olíu- og hrávöruframleiðendur.

FTSE 300 vísitalan, sem mælir 300 stærstu skráðu félögin í Evrópu, stóð í stað við lok markaða en hafði þó hækkað um 0,8% og lækkað um 0,5% innan dags.

Eins og fyrr segir lækkuðu olíufélög lítillega. Þannig lækkuðu félög á borð við BG Group, Shell, Total og Petroplusn á bilinu 1% – 1,9%.

Á móti kemur að bankar á borð við Barclays, Lloyds, HSBC og Royal Bank of Scotland hækkuðu um 6,7% - 13%. Ekki hækkuðu þó allir bankar því UBS og UniCredit lækkuðu um rúm 3% svo dæmi séu tekin.

Í Lundúnum hækkaði FTSE 100 vísitalan að vísu um 0,6%, í Amsterdam lækkaði AEX vísitalan um 0,3% og í Frankfurt hækkaði DAX vísitalan um 0,9%.

Í París lækkaði CAC 40 vísitalan um 0,1% og í Sviss lækkaði SMI vísitalan einnig um 0,1%.

Í Kaupmannahöfn hækkaði OMXC vísitalan um 1,9%, í Stokkhólmi hækkaði OMXS vísitalan um 0,3% og í Osló hækkaði OBX vísitalan um 2,1%.