Þó heildarfjöldi kaupsamninga fasteigna hafi nánast verið sá sami ef horft er til fyrstu fimm mánuða þessa árs og ársins 2018, þá er veltuaukningin ríflega 6% á fasteignamarkaðnum á tímabilinu frá fyrra ári.

Að teknu tilliti til verðbólgu er þetta um 3% raunaukning að því er fram kemur í nýrri mánaðarskýrslu íbúðalánasjóðs um fasteignamarkaðinn. Um 6% aukning hefur verið í fjölda seldra íbúða í sérbýli en 1,2% samdráttur í sölu íbúða í fjölbýli.

Meðalsölutími íbúða á höfuðborgarsvæðinu um 100 dagar

Á sama tíma og aukning hefur orðið í fjölda seldra íbúða í sérbýli á höfuðborgarsvæðinu hefur meðalsölutími þeirra íbúða verið heldur að lengjast. Bendir sú þróun til þess að framboð sérbýlisíbúða sem eru auglýstar til sölu hafi því aukist enn meira en hin aukna eftirspurn.

Meðalsölutími sérbýlisíbúða hefur mælst um 109 dagar það sem af er ári en að meðaltali hefur tekið 94 daga að selja íbúðir í fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu.

Ekki merki um Airbnb-íbúðir inn á fasteignamarkaðinn

Engar sterkar vísbendingar eru um að miklir flutningar hafi átt sér stað á íbúðum úr skammtímaleigu yfir á fasteigna- eða leigumarkaðinn það sem af er ári, en í skýrslunni er farið yfir þróun á framboði eins til þriggja herbergja íbúða á fasteigna- og leigumarkaði á höfuðborgarsvæðinu frá ársbyrjun 2015.

Árshækkun leiguverðs hefur farið lítillega hjaðnandi á flestum svæðum landsins eftir miklar hækkanir á árunum 2017 og 2018 en mælist þó töluverð víða um land. Í maí 2019 var árshækkun leiguverðs mest á landsbyggðinni og í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins eða um 7,9% samanborið við 5,8% hækkun í Reykjavík og 4,6% hækkun í öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu utan Reykjavíkur.

Lægri framleiðni en hraðari vöxtur hérlendis

Framleiðnivöxtur í byggingarstarfsemi hér á landi hefur verið töluvert hraðari en að meðaltali á hinum Norðurlöndunum síðustu árin. Á meðan íslensk fyrirtæki í byggingarstarfsemi hafa aukið framleiðni sína um tæp 38% frá árinu 2008, hefur samsvarandi aukning í Danmörku, Svíþjóð, Noregi og Finnlandi einungis verið tæp 3% að meðaltali en mikill munur er þó á milli þessara landa, einkum Danmerkur og Svíþjóðar. Þrátt fyrir hraða þróun í framleiðni vinnuafls hérlendis munar enn miklu á heildarframleiðni hér og í Noregi, Danmörku og Svíþjóð.