Stuðningur við ríkisstjórnina dalar lítillega í nýjasta þjóðarpúlsi Gallup. Sjálfstæðisflokkurinn mælist sem fyrr flokka stærstur. Eina tölfræðilega marktæka breytingin á fylgi milli kannanna er á fylgi Viðreisnar.

Tæp 22% segjast myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn nú og fækkar þeim um tæp tvö prósentustig. Samfylkingin er næststærst flokka á þingi með 13,7% en fylgi flokksins dalar lítillega.

Viðreisn bætir við sig rúmum tveimur prósentustigum og mælist nú með 12,2%. Fylgi annarra flokka breytist nær ekkert milli mánaða eða um 0,1-0,4 prósentustig. 12,7% segjast myndu kjósa Pírata, 12,1% Miðflokk og slétt 12% eru á bandi Vinstri grænna. Fylgi Framsóknar stendur í 8,5%. Að endingu ber að nefna Flokk fólksins, sem mælist með 3,7%, og Sósíalista með 3,2%.

Samanlagt fylgi ríkisstjórnarflokkanna þriggja er nú 42,1% en stuðningur við hana mælist sex prósentustigum hærri.

Um netkönnun Gallupvar að ræða sem framkvæmd var dagana 27. júní til 30. júlí. Heildarúrtak var 5.009 og þátttökuhlutfall 50,1%. Af þeim tóku tæp 78% afstöðu, 10,4% sögðust myndu skila auðu eða ekki kjósa og 11,7% tók ekki afstöðu.