Hlutabréfavísitölur hreyfðust mjög lítið í Bandaríkjunum í dag, en síðustu þrjá daga hafa markaðir vestanhafs ekki hækkað jafn mikið frá því í mars 2009.

Að sögn Bloomberg fréttaveitunnar bíða fjárfestar eftir tölum um atvinnustig í Bandaríkjunum sem birtar verða á morgun auk þess sem enn ríkir nokkur óvissa um skuldavanda einstakra Evrópuríkja.

Nasdag vísitalan hækkaði um 0,3% í dag, en bæði Dow Jones og S&P 500 lækkuðu um 0,2%.

Vonir standa til að fyrrnefndar tölur um atvinnustig sýni að 125 þúsund ný störf hafi skapast í nóvember, samanborið við 80 þúsund störf í október. Þá gera greiningaraðilar ráð fyrir áframhaldandi 9% atvinnuleysi vestanhafs.