Hlutabréf stóðu nánast í stað í Bandaríkjunum í dag, en bæði jákvæðar og neikvæðar fréttir bárust sem toguðu helstu hlutabréfavísitölur í sitthvora áttina. Standard & Poor's og Dow Jones-vísitölurnar enduðu nálægt opnunargildi við lokun markaða, en Nasdaq lækkaði um 0,3%.

Olíuverð hækkaði um tvo dollara á tunnu í viðskiptum dagsins í Bandaríkjunum og kostaði tunnan 109,9 dollara við lokun markaða í dag. Olíuverð hefur nú hækkað um 70% á einu ári.

Hrávörur hafa yfir höfuð hækkað á mörkuðum, en hrávöruvísitala sem Bloomberg reiknar út hækkaði um 1,3% í dag. Vísitalan tekur til 26 mismunandi hrávörutegunda.

Hrávöruviðskipti hafa borið góða ávöxtun á þessu ári. Sérfræðingar telja að of áhættusamt sé að veðja á hlutabréf strax, og að botni gengisfalls dollarans sé ekki náð.