Lítil hreyfing hefur verið á gengi krónunnar það sem af er degi, en nýtt frumvarp um losun hafta var kynnt í gær. Samkvæmt því á að auka verulega heimildir til fjárfestinga erlendis, bæði beinna fjárfestinga og fjárfestinga í verðbréfum, sem ætti að öðru óbreyttu að setja þrýsting á krónuna. Hefur krónan veikst um 0,11% gagnvart evru og um 0,07% gagnvart Bandaríkjadal, en styrkst um 0,15% gagnvart sterlingspundinu og um 0,20% gagnvart japanska jeninu, svo dæmi séu nefnd.

Reyndar segja aðilar á markaði við Viðskiptablaðið að vegna þess hve aðstæður eru slæmar erlendis, vextir lágir og útlit fyrir afar hóflegan hagvöxt, sé þess ekki að vænta að mikið fjármagn muni streyma úr landinu við losun hafta.

Þá er í frumvarpinu áfram gert ráð fyrir því að stöðutaka og afleiðuviðskipti með krónur verði ennþá miklum takmörkunum háð. Það ætti einnig að hemja sveiflur á gengi krónunnar.