Lítil hreyfing er á vinnu tveggja nefnda sem skipaðar voru af fjármálaráðherra til umfjöllunar annars vegar um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins og hins vegar um málefni lífeyrissjóðanna almennt. Gunnar Björnsson, formaður starfshóps um LSR, sagði í sumar í samtali við Viðskiptablaðið að stefnt væri að því að klára vinnu hópsins fyrir 1. október í ár, en það markmið hefur ekki náðst.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er ástæðan sú að töluvert ber á milli fulltrúa starfsmanna ríkisins í starfshópnum annars vegar og hins vegar fulltrúa fjármálaráðuneytisins.

Miðað var við að klára vinnuna fyrir 1. október vegna þess að stjórn LSR þurfti að taka ákvarðanir um mögulegar breytingar á iðgjaldi frá ríkinu fyrir þá dagsetningu.

Þessi afstöðumunur er ekki nýr af nálinni, en fyrr á árinu kom fram í Viðskiptablaðinu að stéttarfélögin séu hrifnari af því að hækka einfaldlega framlag ríkisins til LSR og rétta þannig við stöðu sjóðsins, en fulltrúar ríkisins hafa hins vegar velt upp hugmyndum um að hækka lífeyrisaldur, svo dæmi sé tekið.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.