Brýnt er að tryggja íslenskum fyrirtækjum aukið aðgengi að verðbréfamörkuðum ef ekki á að verða stöðnun í lífskjaraaukningu hér á landi. Þetta segir í skýrslu Kauphallarinnar um virkni íslensks verðbréfamarkaðar. Skýrslan var útbúin af Kauphöllinni í samstarfi við markaðsaðila og í henni er að finna tíu tillögur til úrbóta á markaði, sem er ætlað að tryggja aukinn aðgang fyrirtækja að fjármagni.

Í skýrslunni kemur fram að eftir efnahagskreppu hafi bönkum og öðrum fjármálastofnunum verið settar þrengri reglur en áður um starfsemi sína. Afleiðingin sé meðal annars sú að starfsemi þeirra er orðin dýrari en áður, auk þess sem þau hafi úr takmarkaðra lausafé að moða. Fyrir vikið séu útlán þeirra bæði dýrari og ekki eins aðgengileg og áður. Mjög líklegt sé því talið að fjármögnun fyrirtækja, sem ekki hafi greiðan aðgang að fjárfestum í gegnum verðbréfamarkaði, verði enn erfiðari en hún er nú. Það sé því útséð að mikil samfélagsleg verðmæti fari forgörðum verði ekki brugðist við þessari stöðu og íslenskum fyrirtækjum tryggð tækifæri til að fjármagna verkefni sín.

Magnus Billing, forstjóri NASDAQ Stockholm, kom hingað til lands í tilefni af útgáfu skýrslunnar. VB sjónvarp náði tali af honum.

Nánari umfjöllun um skýrsluna er að finna í Viðskiptablaðinu sem kom út þann 13. nóvember.