Heildarsala skuldabréfa í janúar nam 8,8 milljörðum króna, samanborið við 28,7 milljarða í desember og 27,6 milljarða á sama tíma í fyrra.

Þetta kemur fram í Hagtölum Seðlabankans en þar af nam sala óverðtryggðra skuldabréfa um hálfum milljarði og sala verðtryggðra skuldabréfa rúmlega 8,2 milljörðum króna.

Heildarsala skuldabréfa í fyrra nam rúmlega 256 milljörðum króna en þar af nam salan á óverðtryggðum skuldabréfum rétt rúmum 194 milljörðum króna. Þar var mest selt af ríkisbréfum eða tæpir 185 milljarðar en seld bréf atvinnufyrirtækja námu rúmum 9 milljörðum króna og voru þau öll seld á fyrri hluta ársins.

Af verðtryggðum skuldabréfum (um 62 milljarðar kr.) var mesta veltan með íbúðabréf eða um 20,4 milljarðar króna. Þá nam velta með bréf atvinnufyrirtækja tæpum 20 milljörðum króna og skuldabréf sveitafélaga um 14 milljörðum króna.