Slæmt veðurfar maímánaðar hefur haft mikil áhrif á sölu grilla hjá BYKO, samkvæmt Steinari Viktorssyni, starfsmanni BYKO sem sér um grilldeild BYKO í Breiddinni.

Að sögn Steinars var salan komin vel af stað í lok apríl þegar veður var gott en svo hægðist á henni í maí þegar veðrið var ekki upp á marga fiska. Steinar sem hefur lengi starfað í grillbransanum, tók það einnig fram að veðrið hafi alltaf haft sín áhrif á sölu á grillum.

Þegar talið berst að því hvaða gerðir grilla séu vinsælastar segir Steinar að töluvert meira seljist af gasgrillum en kolagrillum. Kolagrillin seljast alltaf eitthvað en gasgrillin eru mikið vinsælli og hafa verið það í töluverðan tíma.