Frumvarpsdrög um stofnun Hálendisþjóðgarðs virðast fara öfugt ofan í flesta af þeim 69 aðilum sem sendu inn umsögn um þau. Gildir það jafnt um bændur, sveitarfélög og orkufyrirtæki, sem telja að of langt sé gengið í að skerða nýtingu landsins, sem og umhverfisverndarsinna sem telja að of skammt sé gengið í þeim efnum.

Með frumvarpinu er stefnt að því að miðhálendi Íslands verði allt gert að þjóðgarði. Hinn fyrirhugaði þjóðgarður yrði ansi víðfeðmur, myndi þekja um 40% af flatarmáli landsins, og sá langstærsti í Evrópu. Í greinargerð með frumvarpsdrögunum segir að með vaxandi straumi ferðamanna hafi skilningur aukist á því hve mikil áþreifanleg verðmæti séu fólgin í ósnortinni náttúru Íslands. Meðal annars er vísað í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands „sem sýndi ótvírætt jákvæð efnahagsleg áhrif friðlýstra svæða á framleiðslu og atvinnu bæði fyrir þjóðarbúið og í næsta umhverfi svæðanna“.

Samkvæmt frumvarpinu verður áfram heimilt að starfrækja þær virkjanir sem innan hans lenda auk þess að viðhalda tengdum mannvirkjum á borð við raflínur. Nýframkvæmdir verða hins vegar óheimilar nema þær séu í nýtingarflokki í 3. áfanga rammaáætlunar við stofnun hans. Gert er ráð fyrir því að umferðarréttur verði áfram heimilaður sem og nýting rétthafa á beitar- og veiðiréttindum, enda sé sú nýting sjálfbær.

„[Ekki hefur] verið tekið tillit til ábendinga Landsnets varðandi framtíðaruppbyggingu flutningskerfisins heldur er […] lagt til að nýjar háspennulínur í lofti verði ekki leyfðar innan þjóðgarðs á miðhálendingu. […] Tillaga um bann við loftlínum er ekki í samræmi við þær væntingar sem skapaðar voru með skýrslu um tillögur og áherslur þverpólitískrar nefndar um Hálendisþjóðgarð,“ segir í umsögn Landsnets um frumvarpið.

Bendir fyrirtækið á að nú standi einnig yfir samráð um skýrslu um jarðstrengi í flutningskerfi raforku en þar kemur fram að að jafnaði er aðeins hægt að leggja um 5% nýrra 220 kV flutningslína í jörðu. „Ljóst má vera að framtíðaruppbygging flutningskerfisins mun að einhverju leyti ná til svæða sem eru innan marka þjóðgarðs. Fyrir liggur að miklar tæknilegar takmarkanir eru á lagningu jarðstrengja í þeim hlutum [kerfisins]. Með vísan til þessa varar Landsnet eindregið við því að í frumvarpinu sé lagt til bann við loftlínum innan marka þjóðgarðs,“ segir í umsögninni.

Í umsögn Verkfræðingafélags Íslands er einnig vikið að þessum þætti málsins. Nauðsynlegt getur verið að endurnýja línur og gætu nýrri línur valdið minna raski en þær eldri eru. Einnig er á það bent að ef af virkjun innan garðsins verður þá þarf að vera hægt að flytja orkuna milli staða. Jarðstrengir henti ekki alltaf vel í slíkt verk enda oft erfitt að nýta þá við flutning á raforku með háa spennu.

Ekki litið til loftslagsbreytinga

Innan þjóðgarðsins er ein virkjun sem fellur í nýtingarflokk. Þar er á ferð Skrokkölduvirkjun en fyrirhuguð staðsetning hennar er nánast í miðju landsins, mitt á milli Hágöngulóns og Kvíslarvatns. Frumhönnun er lokið og hefur rannsóknarleyfi vegna hennar verið veitt en mat á umhverfisáhrifum er ekki hafið. Í umsögn Landsvirkjunar kemur fram að æskilegt væri að orkuvinnslusvæðum væri haldið utan þjóðgarðsins. Frumvarpsdrögin geri hins vegar ekki ráð fyrir því og af þeim sökum sé mikilvægt að skýra betur hvaða reglur eigi að gilda um möguleg virkjunarsvæði. Mikilvægt sé að „afmarka virkjunarsvæðin nægilega rúmt, m.a. til að tryggja aðkomu, aðgengi að efnisnámum og haug-svæðum, og veita skýrar heimildir vegna starfsemi sem vera má innan þeirra“. Slíkt sé mikilvægt til að lágmarka kolefnisspor framkvæmda og halda þungaumferð í lágmarki.

„Gera þarf ráð fyrir að gera þurfi breytingar á mannvirkjum á hálendinu. Áhrif loftslagsbreytinga geta t.d. kallað á framkvæmdir til að tryggja öryggi þeirra sem fara um þjóðgarðinn, koma í veg fyrir, eða a.m.k. draga úr rýrnun vistkerfa og vernda náttúru- og menningarminjar,“ segir í umsögn Landsvirkjunar. Dæmi þekkist af slíkum framkvæmdum, til að mynda við Hágöngulón til að vernda Herðubreiðarlindir. Með breyttri úrkomu og hopi jökla vegna hlýnunar jarðar megi gera ráð fyrir breyttu vatnsrennsli og tíðari flóðum. Breytingar geti því orðið á farvegum sem kalli á breytingar á mannvirkjum.

Í umsögn Viðskiptaráðs Íslands (VÍ) er bent á að allt íslenskt atvinnulíf eigi mikið undir að raforka sé hagkvæm, örugg og fyrirsjáanleg. Þótt það sé mikilvægt að vernda ósnortna víðáttu og náttúru er það mat VÍ að frumvarpsdrögin gangi lengra en góðu hófi gegnir. Á það er bent að innan þjóðgarðsins lendi eldri virkjanir sem sjá landsmönnum fyrir meira en tveimur þriðju af núverandi orku. Viðhaldi þeirra og breytingum séu settar mjög þröngar skorður í frumvarpsdrögunum.

Þá hnýtir VÍ í það hvernig farið er með áðurnefnda skýrslu Hagfræðistofnunar í frumvarpsdrögunum sem og umfjöllun Guðmundar Inga Guðbrandssonar, umhverfis- og auðlindaráðherra, um Hálendisþjóðgarð. Hefur hann meðal annars ritað að fyrir hverja krónu sem ríkið leggi til friðlýstra svæða skili 23 krónur sér til baka.

„Það skal áréttað að hér er ekki efast um að það geti verið efnahagslegt virði fólgið í ósnortinni náttúru, að friðlýsingar geti aukið það virði í einhverjum tilfellum eða að það geti verið samfélagslegur ábati af fjárfestingum í innviðum á slíkum stöðum. Umfang þess virðis er þó, að vissu leyti eðli málsins samkvæmt, mjög óljóst og ágæt skýrsla Hagfræðistofnunar einfaldlega svarar því ekki nægilega vel hvert það er, eins og kemur þar mjög skýrt fram,“ segir VÍ. Betra væri að leggja af stað í dýpri greiningu á hinu efnahagslega virði þjóðgarðsins.

N ánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .