„Það er himinn og haf á nýsköpunarumhverfinu á Íslandi í dag og frá því þegar við fórum á stað árið 1999. Það hefur mikið vatn runnið til sjávar og frábært að sjá hversu margt hefur gerst á Íslandi.," segir Davíð Guðjónsson, framkvæmdastjóri Handpoint um nýsköpun á Íslandi.

„Tækniþróunarsjóður RANNÍS og skattafrádráttur vegna rannsókna- og þróunarverkefna hafa gert rosalega mikið fyrir nýsköpunarumhverfið á Íslandi sem og þessi vakning sem hefur orðið á mikilvægi sprotafyrirtækja fyrir hagkerfið. Það er líka að verða til meiri þekking á sviðinu en það vantar þó ennþá þekkingu og stuðningsumhverfi fyrir fyrirtæki sem eru komin af lengra, með vörur og rekstur en er að basla við að koma sér yfir hafið og ná fótfestu á stærri markaði."

Stuðningur á frumstigi ágætur

Davíð segir stuðning við frumstig í nýsköpun vera orðinn ágætan og fleiri reynslumiklir og efnameiri einstaklingar (e. angel investors) farnir að gefa af tíma sínum til að aðstoða frumkvöðla og segir hann það nauðsynlegan þáttur í frumkvöðlaumhverfi. „Við vorum svo lánsamir að fá Þórð Magnússon, fjárfesti og stjórnarformann Eyris, til okkar á frumstigum og stjórnarformennska og leiðsögn hans hefur reynst okkur ómetanleg í gegnum árin," segir Davíð um fyrstu skref Handpoint.

„Enn það er enn lítil þekking og tengsl t.a.m við Kísildalinn og erlenda vaxtarfjárfesta fyrir næstu skref í vaxtarferlinu. Íslensk fyrirtæki hafa stundum náð stökkinu yfir hafið og náð vexti með yfirtökum á erlendum samkeppnisaðilum, þ.e.a.s þau hafa keypt sér aðgang að markaði eins og t.d. Marel, Össur og Actavis hafa gert, en ef þú ert ekki með aðgang að fjámagni á hagstæðum kjörum þá er það mun erfiðara og eftir hrun hefur lánsfjármagn til vaxtar nánast þurrkast upp," segir Davíð um fjármagnshindranir nýsköpunarfyrirtækja.

Stóriðja á kostnað nýsköpunar

Davíð segir næstu skref í uppbyggingu nýsköpunarumhverfis á Íslandi að gera nýsköpunarfyrirtækjum kleift að vaxa þegar þau eru komin með vöru, eru búin að ná árangri og eru komin í útrás. „Á þeim tímapunkti er oft rosalega dýrt að stækka og ef þú ert með forskot en getur ekki vaxið vegna kostnaðar við það þá getur þú dagað uppi með forskotið. Þá geta aðrir vaxið hraðar sem eru með aðgang að þessu vaxtarfjármagni sem gerir stöðuna erfiða."

„En þetta er líka spurning um forgangsröðun. Í Evrópu allri og víðar keppast ríkisstjórnir við að hlúa að nýsköpunarfyrirtækjum því þau átta sig á því að þau skapa flestum vinnu og eru grundvöllur hagvaxtar í alþjóðavæðingunni þar sem þekking skiptir mun meira máli en auðlindir og ódýrt vinnuafl. Á Íslandi finnst manni oft hugsunin vera sú að stóriðja eigi að tryggja Íslandi velgengni inn í framtíðina og öll áhersla eigi að vera á vinnslu auðlinda frekar en uppbyggingu þekkingarverðmæta í bland," segir Davíð.

Gjaldeyrishöftin heftandi fyrir nýsköpun

Við samanburð á nýsköpunarumhverfinu á Íslandi og Bretlandi segir Davíð að Bretarnir hafi vinninginn og það líklega margfalt. Davíð þekkir breska nýsköpunarumhverfið vel en hann er búsettur í Bretlandi. „Þeir búa heldur ekki við gjaldeyrishöft, sem gera nýsköpunarfyrirtækjum nánast ókleift að vaxa eða laða til sín erlenda fjárfesta. Heimurinn er svo stór að menn eru að alltaf að finna upp sama hlutinn aftur og aftur og stærri fjárfestum stendur yfirleitt til boða að fjárfesta í sams konar fyrirtækjum í einu."

„Yfirburðir íslenskra nýsköpunarfyrirtækja þurfa því að vera stórkostlegir til þess að erlendir fjárfestar séu reiðubúnir til að festa vaxtarfjármagn sitt í landi sem læsir það inni til óákveðins tíma og jafnframt hrærir reglulega í skattaumhverfinu. Þessum erfiðleikum, sem vonandi eru tímabundnir, mætum við ekki nógu vel að mínu mati í lokuðu hagkerfi þar sem fjármagn er til staðar en það finnur sér ekki leið inn í nýsköpunarfyrirtækin," segir Davíð.

„Það er sorglegt að helsta ráðgjöf sem maður getur gefið íslenskum frumkvöðlum sé að byggja sitt fyrirtæki upp erlendis eigi þeir sér þess kost. Við eigum langt í land og stöndumst þeim þjóðum sem við viljum bera okkur saman við engan veginn samanburð í þessum efnum, sem þýðir að við þurfum að snúa bökum saman. Efniviðurinn og frumkvöðlaandinn er til staðar, við erum á réttri leið en þurfum að spýta í lófana og gera betur,“ segir Davíð um nýsköpunarumhverfið á Íslandi.

Ítarlegt viðtal við Davíð er að finna í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Ofangreindur kafli rataði ekki í prentuðu útgáfu blaðsins og er því birtur í heild sinni á vb.is. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð .