Hlutabréfamarkaðir lækkuðu í Evrópu í dag en að sögn Reuters fréttastofunnar voru það helst bankar og fjármálafyrirtæki sem leiddu lækkanir dagsins.

Líkt og greint hefur verið frá síðustu daga hafa fjárfestar, bæði í Bandaríkjunum og Evrópu og eins í Asíu litla trú á björgunaraðgerðum bandarískra stjórnvalda. Þá hefur Reuters eftir viðmælendum sínum að í raun hafi björgunaraðgerðir víðs vegar um heiminn haft takmörkuðu áhrif á markaði og því þurfi eitthvað mikið til ef þær eiga að fara að virka nú.

„Það er ljóst að þær aðgerðir sem farið hefur verið í hingað til hafa haft takmörkuð áhrif á markaði þannig að þetta er engin töfralausn,“ hefur Reuters eftir Peter Dixon, hagfræðing hjá Commerzbank staðsettum í Lundúnum þegar hann er spurður út í aðgerðir bandarískra stjórnvalda.

FTSE 300 vísitalan, sem mælir 300 stærstu fyrirtækin á mörkuðum í Evrópu, lækkaði um 1,5% í dag en hafði þó fyrr í dag lækkað um 2%.

Í Lundúnum lækkaði FTSE 100 vísitalan um 0,75%, í Amsterdam lækkaði AEX vísitalan um 2% og í Frankfurt lækkaði DAX vísitalan um 2,7%.

Í París lækkaði CAC 40 vísitalan um 2,15 og í Sviss lækkaði SMI vísitalan um 0,3%.

Í Kaupmannahöfn hækkaði OMXC vísitalan hins vegar um 0,2% en í Stokkhólmi lækkaði OMXS vísitalan um 0,5% og í Osló lækkaði OBX vísitalan um 2,8%.