Flestir hlutabréfamarkaðir lækkuðu í Evrópu í dag og hafa þar með lækkað alla þessa viku.

Að sögn Reuters fréttastofunnar telja fjárfestar að frekari björgunaraðgerðir bandarískra yfirvalda muni aðeins framlengja efnahagskrísunni og stíga því varlega til jarðar í fjárfestingum sínum.

FTSE 300 vísitalan, sem mælir 300 stærstu skráðu félögin á evrópskum mörkuðum, lækkaði um 0,3% en hafði þó í mestallan dag dansað við núllið.

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna tilkynnti í dag að hann hefði í hyggju að verja allt að 275 milljörðum Bandaríkjadala til að koma í veg fyrir nauðungaruppboð bandarískra heimila. Eins og áður segir óttast fjárfestar að það muni einungis fresta vandamálum sem þegar liggur fyrir að leysa.

„Þetta er bara enn ein aðgerðin þar sem menn ætla að henda fúlgu fjár í efnahagslífið,“ hefur Reuters eftir Mike Lenhoff, greiningaraðila hjá Brewin Dolphin.

„Við vitum ekki enn hverjar afleiðingarnar verða þó það líti núna út fyrir að þetta komi í veg fyrir slæma atburði fyrst um sinn.“

Í Lundúnum lækkaði FTSE 100 vísitalan um 0,7%, í Amsterdam lækkaði AEX vísitalan um 0,1% og í Frankfurt lækkaði DAX vísitalan um 0,3%.

Í París stóð CAC 40 vísitalan í stað en í Sviss hækkaði SMI vísitalan um 0,3%.

Í Kaupmannahöfn lækkaði OMXC vísitalan um 1,2%, í Stokkhólmi lækkaði OMXS vísitalan um 0,5% og í Osló lækkaði OBX vísitalan um 1,4%.