Krónubréf hafa nú ekki verið gefin út síðan 15. febrúar síðastliðinn og segir Greining Glitnis í Morgunkorni sínu það ekki koma á óvart þar sem aðstæður á gjaldeyrisskiptamarkaði hafa ekki verið með besta móti hér á landi og vaxtamunur við útlönd verið afar lítill í stystu samningum.

Væntur ávinningur af krónubréfaútgáfu hefur því dregist saman eins og endurspeglast í þeirri deyfð sem hefur ríkt í kringum útgáfur frá janúarlokum.

Lítið er um gjalddaga krónubréfa í sumar. Í dag gjaldfellur tveggja milljarða króna útgáfa þýska bankans Rentenbank sem jafnframt er eini gjalddagi maímánaðar.

Í júní gjaldfalla krónubréf að nafnvirði 15 milljarðar króna að viðbættum vöxtum og í júlí 2 milljarðar króna. Í ágúst gjaldfalla svo 20 milljarðar króna.   Tæplega helmingur þeirra krónubréfa sem eru á gjalddaga á 2. ársfjórðungi hafa nú þegar fallið á gjaldaga, eða samtals 18 milljarðar af þeim 33 milljörðum króna sem falla á tímabilið.

„ Ætla má að lítið verði um krónubréfaútgáfur á meðan aðgengi að erlendu lánsfé er takmarkað og áhættufælni ráðandi meðal fjárfesta á alþjóðamörkuðum,“ segir í Morgunkorni Glitnis.